Interviews

Thursday, October 2, 2014

[BJÓRSMÖKKUN] Steðji Októberbjór

"Besta sem ég hef prófað frá Steðji og ég hef prófað þá alla"

Snillingarnir hjá Steðji (heimasíða) halda áfram að senda Halanum sínum bjór sem við síðan smökkum og segjum ykkur frá. Fyrir þau ykkar sem hafið ennþá ekki komist á Steðjibragðið þá mælir Halifax Collect sérstaklega mikið með Steðji Dökkur, sem er fáanlegur allt árið um kring. Það er bjór með mjúku ölbragði sem skilur mikið eftir sig á tungunni rétt eins og aðrir "rauðir bjórar" á borð við Red Hook ESB. Jólabjór Steðji var vinsælastur í jólabjórsmakki Halans (sjá hér), þannig að augljóslega er þar um gæðabjór að ræða. Svo fannst okkur Páska (hér) -  og Sumarbjórinn skemmtilegur (hér).
Nýverið kom Steðji úr brugghúsinu með Októberbjór, og með honum gera þeir sér pláss á fámennri (Íslenskri) graskershyllu ÁTVR. Ölvisholt er þar líka, en undirtektir þeirra við boði Halans voru dræmar og því var sá bjór ekki með í þessu smakki.
Hér að neðan er að finna viðbrögð fjölbreytts hóps karla og kvenna sem finnst gott að drekka bjór og gaman að prófa nýja drykki. Eins og alltaf, þá eru viðbrögðin af öllum toga. Í hópnum var lögfræðingar, listamenn af ýmsu tagi, umboðsmenn, meðferðafræðingar, sjúkraþjálfarar, kennarar, verkfræðingar, lyfjafræðingar, vitleysingar, snillingar og ég veit ekki hvað og hvað. Skál fyrir því og verði ykkur að góðu!

- Mildur og mjúkur. Létt eftirbragð. Ég fíla hann því ég er ekki fyrir bragðsterka bjóra. Ég myndi kaupa þennan.

- Bragðdaufur með léttri áferð. Fallegur litur. En lítið bragð af graskeri.

- 6% án viðbætts sykurs. Flottur miði, en ég veit ekki af hverju hann er með skorið grasker og leðurblöku. Hrekkjuvaka + október - veldu hlið. En já, fallegur á litinn, skýr. Mjúkur, bragðgóður, hvetjandi og öðruvísi. Óbragðslykt. Ég kem henni ekki alveg fyrir mig. Gott beiskt eftirbragð. Besta sem ég hef prófað frá Steðji og ég hef prófað þá alla.

- Ljúfur í nefni. Fögur fyrirheit. Ferskt en kryddað bragð. Smooth eftirbragð, pínu frútí. Læk!

- Ég veit ekki hvort það megi segja það, en, af öllum sérbjórum Steðji þá er þessi sá eini sem er hálf leiðinlegur. Hann kemst ekki af stað og er of hógvær. Rauður vissulega, en, Dökkur bjórinn frá þeim er með mun meiri persónuleika. Þessi er eins og diet dökkur, með flottari miða. Hér vantar mun meira grasker. Lyktin víkur aðeins að graskerinu en svo er það nánast búið. Graskersbjórar bera oft með sér hnetukeim sem tekur vel á móti manni en hann er ekki að finna hér. Fáið ykkur Dökka í staðinn því hann fer einhvernveginn að því að vera hátíðlegri en þessi (þó hann sé ekki hátíðlegur sjálfur). Þetta er hins vegar langflottasti Steðjimiðinn til þessa, ásamt þeim sem prýddi „hvalabjórinn.“

- Súr lykt, fallegur litur. Milt bragð, snert af karamellu.

- Umbúðarhönnun sú skársta frá Steðji. Fæ á tilfinninguna að þetta sé Halloweenbjór út frá myndmálinu á miðanum. Fallegur litur; dökkrauðbrúnn, bragðsterkur en ekki bitur. Minnir á aðra amber litaða bjóra. Undarleg þessi „fúla“ lykt samt. Mætti vera minni, þrátt fyrir að hún sé ekki það sterk. Mildur en ég finn ekki þetta „sérbragð“ af graskersfræum. Ágætur bjór, mildur, mætti hafa meiri fyllingu en er mjög auðdrekkanlegur.

- Lyktin minnir á poka af heitu heimilissorpi en bragðið er mun betra, milt og ferskt. Kannski helst til of bragðlítill. 6% og engin spíri? Miðinn á flöskunni er hress og fær bjórinn prik fyrir það. Vantar pung í flöskuna. Ég er frekar lítið spenntur.

- Þessi er dökkur og mjúkur eins og Barry White. Vel ilmandi og mitt persónulega mat er að hann sé mjög góður. Ef ég vík mér að miðanum þá verð ég að segja að hann er sá flottasti sem ég hef séð frá Steðji hingað til. Augljós Halloween skilaboð en það sem meira er er að mér finnst bjórinn samsvara sér mjög vel með haustinu. Breytingar í litum, menningu og veðurfari. Mæli hiklaust með honum og get vel hugsað mér að versla hann.

- Sætur en samt ekki. Gefur tóninn fyrir meiri sætleika en niðurstaðan er: Ekki nógu mikið bragð... Undirstaðan er góð en endirinn ekki nógu góður.

- Í nefi: Gamall. Rakaskemmdir. Múraður sturtuklefi. Þurr múr. Steypuefni. Brennd karamella.
  Í munni: Sætur, lifir stutt, lítið bragð, þunnur. Vatnskenndur. Ekkert spes.


Steðji á facebook.
Smakkarar: Þórir, Helga, Guðný, Ævar, Sigurður, Margrét, Jóhanna, Birkir, Hörður, Halla og Arna.

Skyldar greinar
Sumarbjórsmakk Halans: Steðji sumarbjór
Páskabjórsmakk Halans: "Fallegur litur" útgáfan
Þorrabjórsmökkun Halans: "Fábjórt en góðbjórt" útgáfan
Jólabjórsmökkun Halans: (Ó)venjulegt fólk drekkur tækifærisbjór! "Þú komst með jólin til mín" útgáfan.

No comments:

Post a Comment