Það er eitthvað alveg dásamlegt við það þegar gömul uppáhöld minna á sig eftir langt hlé, þó svo að frammistaðan sé ekki á pari við frækna fortíð. Líkja má þessu við það ef Michael Jordan tæki upp á því að reima á sig körfuboltaskó og héldi inn á völlinn, nú rétt skriðinn yfir fimmtugt. Margur maðurinn myndi rjúka til handa og fóta og tryggja sér aðgöngumiða að þeim sögulega viðburði. En yrði deilt um gæði tilþrifanna? Ég held ekki.
Það sama má segja um Rock or Bust, nýjustu plötu hinnar goðsagnakenndu AC/DC sem hefur átt góðu gengi að fagna í rétt um fjóra áratugi og selt yfir 100 milljón plötur í heimi hér. Ég varð glaður fyrst um sinn þegar ég hlýddi á, enda hljómar platan eins og AC/DC; mjög vel spiluð og upptaka og frágangur er með ágætum. En mikið ofboðslega er þetta langt frá að vera í líkingu við hvers megnugir þessir menn voru.
AC/DC féll nefnilega í ákveðið far seint á níunda áratugnum, eftir að hafa vart slegið feiltón fyrstu tíu ár ferilsins eða svo; að gefa út fáein góð lög í bland við algjört uppfyllingarefni. Þar að auki hætti hún að vera starfandi hljómsveit. Menn hittust bara á fimm ára fresti, fóru yfir nýjar hugmyndir og síðan hófust upptökur. Margt af því sem heyra má á síðustu plötum AC/DC eru annað eða þriðja rennsli af hverju lagi og er útkoman eftir því – lögin eru ekki búin að fá tækifæri til að lifna við. Mótast, gerjast og verða að einhverju. Blow Up Your Video, Stiff Upper Lip, Black Ice og hin stórlega ofmetna The Razor‘s Edge eru allt plötur sem lifðu ekki lengi sökum þessa. Það gerði hins vegar hin ágæta Ballbreaker sem komst töluvert nær því að vera heil í gegn enda gáfu menn sér aðeins meiri tíma það árið.
Rock or Bust hefur fá góð lög að geyma og þau eru að auki talsvert minna spennandi en góðu sprettirnir á síðustu plötum AC/DC. Trommarinn Phil Rudd hefur aðeins misst sveifluna (og mögulega vitið, miðað við fréttaflutning síðustu mánaða) sem einkenndi taktfastan og kraftmikinn trommuleik hans. Stevie Young, bróðursonur Angus og Malcolm Young, stendur sig vel í að leysa frænda sinn af enda tiltölulega auðvelt að líkja eftir stíl þess síðarnefnda, hafi fólk sterka tilfinningu fyrir einföldum rokk-gítarleik. Hann er heldur ekki alls óvanur – leysti Malcolm af í tónleikaferð um Bandaríkin árið 1988 og það tók enginn eftir því! Sami bolur, sama hár, sami gítar og skotheld spilamennska.
Það leynast sprettir sem glöddu mig ágætlega í smástund á Rock or Bust og þá sérstaklega í spilamennskunni, sem er oft fín. Gítarspilið og keyrslan í "Play Ball" er nokkuð skemmtileg og þá sérstaklega þáttur Angus Young en aðalstef lagsins er virkilega smekklegt fyrir hans tilstuðlan. Bakraddirnar og stemningin í "Miss Adventure" er ágæt og lögin "Hard Times" og "Emission Control" hafa líka að geyma smásnefil af orkunni sem bjó í AC/DC hér áður. Titillagið er líka nokkuð fínt og er skólabókardæmi um hvað hið dæmigerða AC/DC-lag gengur út á: hárnákvæmar þagnir og áherslur í gíturum ofan á þéttan, taktfastan grunn bassa- og trommuleikarans. Lagið líður hins vegar mest fyrir fremur hallærislegan texta. Og þar er einn þáttur plötunnar sem er alveg yfirmáta metnaðarlaus; textagerðin. Í gegnum tíðina hafa gráglettnir textar hljómsveitarinnar nefnilega spilað lykilrullu í lagasmíðunum og oft hefur maður brosað út í annað yfir tvíræðninni og sniðugum orðaleikjum höfundanna. Það er sannarlega ekki upp á teningnum hér. Og það að heyra Brian Johnson, tæplega sjötugan manninn, syngja um þröng sköp og annað lostafullt fer langt með að valda mér ógleði. Í því samhengi veit ég ekki hvernig ég brygðist við ef ég stæði afa minn að því að spígspora í þröngum gallabuxum á sviði, syngjandi rokklög með dónalegum textum um ungar stúlkur! Það er eitt að vera ungur, smekklegur og gera svalar, spengilegar hosur sínar grænar fyrir dömunum. Það er annað að vera elliær öfuguggi.
Hér og þar sést glitta í færni Angus Young og spilamennskan hjá hinum er eins og áður sagði alveg ágæt. Brian Johnson syngur á köflum vel en röddin hljómar fullkreist í sumum lögum, samanber frammistöðu hans í laginu "Rock The House". Þar blandast rembingurinn saman við hallærislega textagerð og útkoman því hreinlega pínleg.
Ég er mjög þakklátur AC/DC fyrir allar frábæru plöturnar sem hafa glatt mig svo mikið frá því ég kynntist hljómsveitinni fyrst. Að auki er AC/DC með því betra sem hægt er að upplifa á tónleikum og mun vafalítið ekki láta sitt eftir liggja á komandi tónleikaferð þar sem hver einn og einasti tónleikamiði mun seljast . Powerage, Highway To Hell og Back In Black eru allt frábærar plötur. Flick of The Switch, Fly On The Wall og Ballbreaker eru fínar. Black Ice var sæmileg en lifði ekki lengi. Rock or Bust er hins vegar það versta sem AC/DC hefur sent frá sér og án efa slappasta birtingarmynd sem ég hef upplifað af þessari annars frábæru hljómsveit. [Columbia]
- Smári Tarfur
No comments:
Post a Comment