Interviews

Monday, March 2, 2015

AC/DC - The Razor's Edge

*1/2 af * * * * * The Razor's Edge

The Razor‘s Edge er næst-mest selda AC/DC plata frá upphafi. Tíu til tólf milljónir eintaka hafa selst frá því að hún kom út árið 1990 en Back In Black er sem fyrr mest selda rokkplata allra tíma, en yfir 50 milljónir eintaka hafa selst af þeim merka grip. Aðeins Thriller með Michael Jackson hefur selst meira en fyrrnefnd plata.
Í plötudómi um nýjustu afurð AC/DC, Rock or Bust (plötudómur), fullyrti ég að The Razor‘s Edge væri stórlega ofmetin. Viðbrögðin við þessu voru blendin og ansi margir með aumar stélfjaðrir eftir að hafa heyrt þessi stóru orð. Mér þótti því upplagt að rökstyðja mál mitt.

Einföld útskýring hljóðar svo: The Razor‘s Edge hefur að geyma 12 lög. Átta þeirra komast nálægt því að vera algjört rusl. Tvö eru frábær. Önnur tvö ljómandi fín. Þannig að 67% plötunnar er svo til ónothæf tónlist, a.m.k. í eyrum þess sem þetta ritar. Hún getur því ekki talist sem góð plata í mínum bókum. Fer frekar nær því að vera eins lags undur.

Ef Who Made Who er talin með, þá er The Razor‘s Edge fjórða og síðasta hljóðversplatan sem AC/DC gerði á Phil Rudd-lausa tímabilinu sínu (1983-1994). Fyrst var það Simon Wright sem fyllti skarð Rudd en sá sem stendur fyrir bumbuslættinum á The Razor‘s Edge er Chris Slade. Hvorugum þeirra tókst að endurskapa þann trausta grunn sem Rudd gerði, sem spilar svo stóran þátt í AC/DC-hljómnum. Afslöppuð og kraftmikil spilamennska hans gerir það að verkum að leikur einn er fyrir aðra meðlimi sveitarinnar að skila eigin hlutverki með algjörum sóma. Ruddarinn liggur aftarlega í taktinum, lætur settið finna duglega fyrir því og býður upp á töluverða sveiflu í hi-hatinu, sem gerir þennan einfalda, margtuggna fjórir/fjórðu takt skemmtilega safaríkan.
Simon Wright var líklega nær því að ná Ruddaranum heldur en Slade. Ágætis kraftur og sveifla í Wright en stíllinn þó töluvert ólíkur fyrirrennaranum.

Kanadamaðurinn Bruce Fairbairn var ráðinn til að upptökustýra plötunni en afrekalisti hans var á þessum tíma orðinn ansi myndarlegur, sölulega séð. Plötur á borð við Slippery When Wet og New Jersey (Bon Jovi), sem og Permanent Vacation og Pump (Aerosmith) segja meira en mörg orð um hæfni hans til að gera rokkhljómsveitir nógu poppaðar til að höfða til almúgans. Og auðvitað, að selja fleiri eintök. Það tókst þökk sé einu lagi; "Thunderstruck", og AC/DC endurnýjaði aðdáendahóp sinn svo um munaði.

Hafi hinn eiginlegi AC/DC-hljómur verið í hættu á síðustu verkum sveitarinnar, þá tapast hann á köflum algjörlega á The Razor‘s Edge. Trommuleikurinn er ferkantaður með eindæmum, þó hann sé vissulega ekki lélegur. Að auki hljómar hann meira í áttina að vél – trommuheila - en að hér séu skinn og kjuðar höfð um hönd. Gítararnir eru full gervilegir fyrir minn smekk; hljómur þeirra er gerilsneyddur og skortir gredduna sem maður er vanur frá Young-bræðrum. Í gítarsólóinu í "Let‘s Make It" er t.a.m. einhver chorus/flanger-slykja í gítarhljómnum sem þannig séð á alveg rétt á sér; heildarhljómur sveitarinnar er jú mjög fínpússaður og fágaður á þessari plötu. En fjandakornið, þetta er AC/DC! Hrátt og hart blús-skotið rokk, beint úr kúnni. Hérna er því búið að setja óþarfa demanta á mjaltavélina, hræra í innihaldinu með silfurþeytu og það sem átti að vera ábrystir er orðið krem brúley (hvernig svo sem maður skrifar það!). Og oft ansi bragðvont, þar að auki.

Söngstíll Brian Johnson er greinilega mjög vandmeðfarinn þegar kemur að upptökum og frágangi, eins og heyra má glöggt á The Razor‘s Edge. Johnson syngur á mjög lágum styrk, í einhvers konar falsettu, með örlítilli bjögun. Sé góður hljóðnemi til staðar, hvort sem um ræðir tónleika eða upptökur, þá sker röddin sig í gegnum tónlistina í formi kraftmikilla öskra. Ansi magnaður söngstíll.

Eitthvað hefur farið úrskeiðis á The Razor‘s Edge þó svo að röddin gangi vel upp í sumum laganna. Ekki bætir úr skák að textagerðin steytir ítrekað harkalega á skeri á plötunni; Let‘s make it, don‘t waste it / Let‘s make it, come on and taste it. Og það að heyra menn rembast af alefli og í leiðinni stynja út sér aulalegar rímur sem þátttakendur Músíktilrauna á táningsaldri myndu ekki einu sinni láta detta sér til hugar, er afleit blanda.

Allavega, víkjum nú að lögunum tólf sem eru í boði á The Razor‘s Edge. Platan hefst á Thunderstruck, sem er langlífasti smellur AC/DC síðan "For Those About To Rock" og er nánast á pari við "You Shook Me All Night Long" í vinsældum, enn þann dag í dag.
Hér á nýstárlegur hljómur plötunnar vel við og gengur fullkomlega upp. Ég hef alltaf verið afar hrifinn af "Thunderstruck"-laginu alveg frá fyrstu hlustun. Smellurinn góði reyndist líka vera upphafslag AC/DC á tónleikunum í tengslum við The Razor‘s Edge, sem ýtti enn frekar undir aðdáun mína á laginu. Það var ógleymanleg upplifun fyrir ungan dreng að sjá Angus birtast ofarlega á sviðinu og hefja gítarstefið sígilda. Uppbyggingin í laginu er mögnuð og það leiðir mann ávallt í nýjar, spennandi hæðir. Ákaflega vel heppnað lag en til gamans má geta að "Thunderstruck" byggir að mörgu leyti á gamalli hugmynd sem heyra má snefil af í seinni hluta lagsins "Who Made Who" frá árinu 1986.
Við tekur "Fire Your Guns", eitt af fáum lögum hljómsveitarinnar þar sem hraðinn er keyrður duglega upp og fer það AC/DC ágætlega að þessu sinni. "Money Talks" er næst og er fínt, svo langt sem það nær. Fyrir mitt leyti hefði verið hægt að gera miklu, miklu betur. Ég gæti vel ímyndað mér að þetta yrði sígillt AC/DC lag ef – afsakið orðbragðið – pungurinn yrði „keyrður upp,“ ef svo hrikalega mætti að orði komast. Trommuleikurinn er ferkantaður og leiðinlegur en gítarstefið er nokkuð flott. Laglínan smellpassar og textinn ágætur. Heildarhljómurinn er bara, því miður, óskaplega aumur. Titillag plötunnar er hins vegar hreint út sagt frábært. Hér fer hljómsveitin ótroðnar slóðir og gerir sig nánast seka um að skila af sér tónverki – hugtak sem finnst vart í orðabókum AC/DC-manna. Dramatískt og skemmtilegt lag með frábærum hljóðfæraleik. Að auki fer Brian Johnson á kostum í hlutverki sögumannsins í gegnum þetta mikla ævintýri. Án efa eitt besta lag AC/DC með Johnson innanborðs.

Þar með eru gullmolarnir tveir á þessari plötu upptaldir, ef undan er skilið lokalag plötunnar. Og er það miður því að þegar hér er komið eru 8 lög eftir.

Jólalag plötunnar (Bíddu..HVAÐ SAGÐIRÐU????) "Mistress For Christmas" er með því undarlegasta sem AC/DC hefur sent frá sér. Ég hef aldrei náð að gera mér fyllilega grein fyrir hvað mér finnst um þetta lag. Leiðinlegt? Hallærislegt? Það er allavega ekki gott, það er á kristaltæru.
"Rock Your Heart Out" hefði getað orðið ágætt með Phil Rudd innanborðs og öðrum hljómi. En það er því miður ekki upp á teningnum hér.
"Are You Ready" hefur aldrei höfðað neitt sérstaklega til mín. Poppað AC/DC lag sem skilur ekki mikið eftir sig og rataði æ sjaldnar á fóninn því meiri tími sem leið frá útgáfu plötunnar.
"Got You By The Balls" er sæmilegt en átakanlega leiðinlegur millikafli/brú sem og fremur typpalegur texti gerir útslagið fyrir mig.

"Shot Of Love" á sína spretti en nær þó bara að vera miðlungs-lag á AC/DC-mælikvarða. Rétt eins og með "Money Talks"; hefði Ruddarinn séð um að hakkberja settið og upptaka og frágangur verið í takt við hrárri plötur hljómsveitarinnar, þá hefðum við mögulega geta stigið dans við þessa tóna. Og það sama má segja um "Goodbye & Good Riddance To Bad Luck". Nokkuð skítugt rokklag en röddin hans Brian hljómar illa; í stað þess að vera afslöppuð virkar eins og hún sé við það að bresta á köflum eða að kallinn eigi jafnvel eftir að kyngja almennilega. Eins og sagt var í tímariti fyrir einhverju síðan; „Hann hljómar eins og þrír kettir að slást innilokaðir í taupoka.“ Ansi spaugileg lýsing á söngframmistöðu Brian Johnson.

"Let‘s Make It"fer síðan létt með að skipa sér í hóp allra leiðinlegustu laga sem AC/DC hefur sent frá sér.
Lokalagið er síðan hið ágæta "If You Dare." Fínasta rokklag; skemmtileg spilamennska og lunkin útsetning, þó hljómurinn sé – sem fyrr – leiðinlegur.

Í heildina litið er The Razor‘s Edge alveg afskaplega slöpp plata. Hápunktarnir eru vissulega frábærir (Thunderstruck og titillagið) en þeir gefa mjög ranga mynd af þessari plötu, sem er troðfull af lafþunnu uppfyllingarefni sem eldist að auki mjög illa. Platan er líka mjög undarleg birtingarmynd af AC/DC sem fetar mjög vafasama braut hér - hættir sér skuggalega nálægt glamúrnum. Það má gera ýmislegt við hljóm AC/DC. Að fínpússa og gerilsneyða er sannarlega ekki eitt af því.

Þangað til Rock Or Bust kom út þótti mér The Razor‘s Edge alltaf lélegasta plata AC/DC. Hún fer mjög sjaldan á fóninn af tveimur ástæðum; Fyrir það fyrsta er hljómur hennar sá leiðinlegasti sem hljómsveitin hefur boðið upp á, og þá er mikið sagt því Blow Up Your Video og Fly On The Wall voru ekki beysnar að þessu leytinu. Í öðru lagi eru allt of mörg léleg lög. Rosalega léleg og leiðinleg lög.

Eins og áður sagði; Stórlega ofmetin AC/DC-plata.
- Smári Tarfur




Related stories
AC / DC - Rock or Bust

No comments:

Post a Comment