Interviews

Friday, May 2, 2014

Sumarbjórsmakk Halans: Steðji sumarbjór

Jæja góðu fólkar. Í fljótu bragði þekki ég ekki hversu margir sumarbjórar íslensku brugghúsin ætla að tefla fram í ár. Ég þykist vita að Sumaröl Víkings detti aftur inn enda var því vel tekið þegar það kom út og svo ætlar Ölvisholt að koma inn í þessa flóru. Undirrituðum hlakkar mikið til að bragða á þeim drykk. Góðvinir oss, Steðji, sitja sjaldnast á strák sínum og voru fljótastir til að pranga inn á okkur bjór til smökkunar, og kunnum við þeim bestur þakkir fyrir það. Áður en þið haldið áfram að lesa, þá vil ég benda ykkur á heimasíðu Brugghús Steðji hér.

Sumarbjórsmakkið verður með öðru sniði en Jóla - , Þorra- og páskabjórsmakkið. Nú ætlum við að taka fyrir einn bjór í einu, og eins og áður sagði er það Steðji sem eiga fyrsta leik.
Áður en bjórsérfræðingar og snobbfygli stökkva upp í nef sér þá vil ég taka fram að við lítum ekki á okkur sem sérstakt kunnáttufólk í drykkjarsmökkun. Við erum "fólkið á götunni" sem kaupir þetta. Skoðið hátíðabjórgreinarnar til að fá nánari útlistun á því hvaðan við erum að koma með þessar smakkanir.

- Hressilega hlandgulur (ljós) á litinn. Grimm hamplykt við opnun. Fyrstu sopar ánægjulegir. Maður fær sannarlega ímyndina sumarlegur, en í hverju felst það? Byrjar léttur en svo þyngist bragðið aðeins.
Góður og ferskur bjór sem svínvirkar í magndrykkju. Ekki mikið bragð sem skilur eftir, en alls engin vonbrigði.

- Mjög ljós á litinn. Pínu beiskja í eftirbragði. Minnir á aðra evrópska lagerbjóra sem eru ekki óalgengir í krönum landsins. Vantar upp á frískleikann, kannski meiri sítrus eða annað bjart bragð sem minnir á sumarið. Mig langaði að finnast þessi bjór betri og aftur, finna meira frískandi bragð sem skæri hann meira úr frá öðrum lagerbjórum. Annars fínn sumarbjór. Best drukkinn íííííískaldur og á björtum sumardegi í góðra vina hópi. Go Steðji!

- Mér finnst ekkert merkilegt í gangi hér. Ég finn ekki nægilega mikið bragð. Minnir á léttbjór. Hann myndi þó kannski henta þokkalega í sumar til að svala þorsta. Þetta rennur vel niður og maður gæti alveg leikið sér að því að drekka kippu. Hann er ekki vondur en hér er ekki mikill eðall í gangi.

- Freyðir eins og flestir auðfundnir "ríkisbjórar." Ekki mikill toppur. Mjög ljós. Sterk lykt af grasi, þá meina ég hampi. Humlarnir stökkva úr flöskustútnum og ná athyggli áður en drukkið er. Sé hann fyrir mér sem góðan ískaldan eftir langan vinnudag, en því miður er ekkert sem gerir hann sérstaklega árstíðarbundinn umfram aðra lagerbjóra annað en smá ávaxtakeimur sem er núþegar normið fyrir allnokkra heilsársbjóra. Eftir ítarlegri athugun er hann betri eftir því sem hann fær meira loft, þ.e.a.s. betri úr glasi og þá sérstaklega eftir að hafa legið í glasi um nokkra stund.
Það sem gerir þennan bjór er eftirbragðið og hey- og grasilmurinn sem vekur upp myndir og minningar um náttúruna. Þannig er hann tilvalin í léttdrykkju út í móa eða upphafið á góðu skralli. Því meira sem maður drekkur því sterkar kemur annars léttvægur sítruskeimurinn fram.




Athugasemdir varðandi miðann:
- Skársti miðinn frá Steðji hingað til, en... Að sjálfsögðu á maður ekki að dæma bók út frá kápunni, en það skemmir alls ekki fyrir ef varan er heillandi frá byrjun.
- Ekkert rosalega "bjórleg" mynd.
- Eins og ljósmynd fyrir myndaramma í stofu en ekki hönnun fyrir flösku.
- Einfalda mætti miðann og steðjinn sést varla á þessum þar sem hann situr í miðjum lúpínuakri. Lítur betur út en aðrir miðar steðji en mætti betrumbæta lógóið sem sést illa og ekki virðist vera fastheldni varðandi fonta fyrir fyrirtækjaheitið s.s. Steðji.

Tónlist á meðan smakki stóð



Smakkendur voru að þessu sinni Hörður Ólafsson -Myndlistar - og tónlistarmaður (Holaf / Momentum), Erling Bang (tónlistar- og kvikmyndagerðarmaður, Ojba Rasta (band)), Hanna Lind (meðferðarfræðingur) og Birkir Fjalar ritsjóri bloggsins.

Sérstakar þakkir fá Gummi Jónasar og herra Tamzok.

No comments:

Post a Comment