Interviews

Tuesday, November 17, 2020

AC / DC - Power Up




Þá er ég búinn að eyða síðustu tveimur vikum í að hlusta reglulega á nýjustu breiðskífu AC/DC. Hún hefur fengið að óma við mismunandi aðstæður, á hvínandi háum styrk, lágum styrk, í hátölurum, í heyrnatólum og þar fram eftir götunum. Power Up er sú þriðja sem hljómsveitin gerir með bandaríska upptökustjóranum Brendan O’Brien og önnur platan án gítarleikarans Malcolm Young innanborðs. Hann er að vísu titlaður sem höfundur allra laganna ásamt Angus Young, gítargoðinu í skólabúningnum. Platan er einnig tileinkuð Malcolm; einhvers konar heiðursplata, ef svo má segja.
Þó það sé gott og blessað, þá fær hún samt sem áður enga forgjöf — tónlistin sjálf er það sem skiptir málinu. Erlenda rokkpressan hefur hins vegar verið ansi gjöful í þessu samhengi nú þegar og gefið henni himinnháar einkunnir hægri, vinstri — rétt eins og að hér sé kominn jafnoki Back In Black eða Highway To Hell. Ég leitast því eftir að dæma hana í samhengi við aðrar plötur sem AC/DC hefur sent frá sér. Back In Black fengi því 10/10, Powerage 10/10 og Highway To Hell 8.5/10, svo dæmi séu tekin.

Ég átti mér veika en raunhæfa von í brjósti að platan yrði a.m.k. betri en sú síðasta (Rock or Bust) sem var í mínum huga sú lélegasta frá AC/DC. Og í raun var vonin bara ein; að ég fengi eitt gott lag sem væri nægilega gott til að vilja hlusta á það áfram. Rétt eins og "Money Made" (af Black Ice) og "Stiff Upper Lip" af samnefndri plötu, sem lifa ennþá ágætu lífi hjá mér. Væntingunum var stillt kirfilega í hóf, svo því sé haldið til haga.

Mikið hefur gengið á í herbúðum AC/DC undanfarin ár. Vandræði söngvarans Brian Johnson með heyrnina, lagaleg og eiturlyfjatengd mál Phil Rudd, trommuleikara, sem og fráfall Malcolm Young. Auk þess hafði Cliff Williams gefið það út að hann væri hættur að plokka bassann með AC/DC (eftir tónleikaferð Rock or Bust). Það er því ákveðið kraftaverk að hljómsveitin hafi náð saman á ný. Þeir eru allir Angus til fulltingis ásamt bróðursyni hans, Stevie Young, sem stendur sig vel sem arftaki Malcolm. Að koma í stað hans fyllilega er að vísu annað mál - með allri hans nærveru og sýn á tónlistina.

En víkjum að plötunni.

Fyrir mitt leyti þurfa ákveðnir hlutir að ganga upp til þess að AC/DC-lag grípi mig. Hinn eiturþétti grunnur frá Phil Rudd og Cliff Williams þarf að vera til staðar, sem er nú reyndar sjálfgefið þegar þetta tvíeyki er annars vegar. Gítarriffið þarf að vekja áhuga minn, og hér þarf ekki að vera neitt stjarnfræðilegt í gangi. Einföld gítarriff úr smiðju AC/DC geta nefnilega verið mjög spennandi fyrirbæri. Texti lagsins má alveg vera góður en miður góð textasmíði sleppur þó, að því gefnu að hún fari ekki í taugarnar á mér. Að lokum þarf hljómur plötunnar að vera í lagi, sem er reyndar oftast raunin á AC/DC plötum, ef undanskilin eru fáein hliðarspor hér og þar.

Það er skemmst frá því að segja að ekkert á Power Up vekur áhuga minn að verulegu leyti. Það glittir í eilitla stemningu hér og þar en aldrei nægilega mikið til þess að ég verði kátur með. Það er til dæmis með ólíkindum að Angus Young hafi ákveðið að búa til lag úr gítarrifinu í "Rejection." Ótrúlega óspennandi stef sem all-flestir lagasmiðir hefðu hent í ruslið án þess að hugsa sig tvisvar um.
Sama má segja um "Witch’s Spell" sem er í raun bara örlítið lengri útgáfa af "Burnin’ Alive" (af Ballbreaker) og mjög svipað í útfærslu að öðru leyti. Í "Kick You When You’re Down" tekst upptökustjóranum að draga fram einhvers konar ameríska hlið af hljómsveitinni, sem fer henni ekki vel. "Through The Mists of Time" er síðan svona rokk-slagari í anda Bruce Springsteen og fremur keimlíkur fyrri tilraunum AC/DC ("Anything Goes" og "Rock The Blues Away") með Brendan O’Brien í því samhengi. Mér þótti "Anything Goes" ágætt en hin tvö töluvert lakari. Heilt yfir fæ ég oft á tilfinninguna að O’Brien hreinlega nái ekki almennilega orkunni í AC/DC þó svo að þar sé mjög öflugur upptökustjóri á ferð. 
En sé verkferli plötunnar skoðað, þá kemur útkoman ekki mikið á óvart. Power Up tók sex vikur í vinnslu og upptöku. Angus mætir í hljóðverið, klyfjaður af gítarriffum. Í slagtogi við Brendan O’Brien leitast hann svo við að búa til lög úr þeim stefjum sem þykja góð. Textarnir eru samdir í leiðinni. Hinum meðlimum hljómsveitarinnar eru síðan kennd lögin og annað eða þriðja rennsli af laginu er það sem heyra má á plötunni. Brian syngur svo textana. Og textagerðin er ekki beysin. Sannarlega ekki. Maður getur fyrirgefið eitt og annað þegar maður er staddur á Músíktilraunum og heyrir byrjendur í textagerð á ensku notast við lítt spennandi rímorð. En þegar hljómsveit á borð við AC/DC, með tæplega 50 ára feril, er annars vegar þá vill maður að vandað sé til verka. Og þá meina ég ekki að hér sé fúlasta alvara á ferð, alls ekki. Bara vel samið og áhugavert efni.
Stundum finnst manni skrítið að sumt hafi ratað alla leið á plötu og þetta verður á köflum óheyrilega hallærislegt: „Feel the chills up and down your spine/ I'm gonna make you fly“ og „Fire light, a fire bright/ Fire in the night.“ Lagið "Money Shot"er svo í heild sinni ágætis dæmi um þetta. Og mér finnst bara hálf ógeðfellt að heyra hinn 73ja ára Brian Johnson syngja: „Lady, just try the money shot/Best taken when hot.“
Bjartasti punkturinn fyrir mig er "No Man’s Land," sem er alveg ágætis lag. Það kæmi mér að vísu á óvart ef ég myndi leita í það í framtíðinni en það gladdi mig engu að síður pínu. Gítarleikurinn í "Kick You When You’re Down" er sæmilegur þó lagið sé ekkert sérstakt. Óttalegt iðnaðarrokk á ameríska vísu. "Realize" er þokkalegt en nær aldrei neinu sérstöku flugi fyrir minn smekk. Og það er ekki svo að hér sé hljóðfæraleik ábótavant. Hann er með ágætum á allri plötunni. Ég einfaldlega trúi ekki lögunum. Og þau eru ekki neitt, neitt ef svo má að orði komast. Máski er það fjarvera Malcolm Young sem spilar hér inn í og er þá ekki við Stevie Young að sakast. Malcolm einfaldega var AC/DC. Hann stofnaði hljómsveitina, samdi 90% tónlistarinnar, hafði sýnina sem þurfti til að drífa hlutina áfram og sá til þess að vandað var til verka. Rembingurinn í AC/DC er allavega mun meira áberandi en áður á Rock or Bust og Power Up þar sem Malcolm er fjarri góðu gamni.

Þetta er því miður raunin. Mig langar mjög að hafa gaman að þessari plötu (sem og þeirri síðustu). En það er alveg sama hvað ég reyni, þetta er bara lapþunnt og leiðinlegt.  Það er sannarlega ekki upplifun mín þegar ég hlusta á frábær lög úr smiðju AC/DC eins og "Inject The Venom," "Shake a Leg," "Flick Of The Switch" eða risaslagara á borð við "Back In Black", "Hell’s Bells," "For Those About To Rock" og "Thunderstruck." Meira að segja minna þekkt en frábær lög á borð við "Hard as a Rock," "Playing With Girls," "Ballbreaker," "Evil Walks" eða "Stiff Upper Lip" hafa ljómandi góð áhrif á mig. Og þetta er bara örlítið brot af því öfluga sem AC/DC hefur gert með Brian Johnson innanborðs að ekki sé minnst á árin með Bon Scott. Það er heldur ekki svo að ég sé yfirgengilega neikvætt og kröfuhart gerpi sem kann ekki neitt gott að meta, þó það virki eflaust svo á einhverja lesendur (ef ekki alla). Ég fór sannarlega ekki í að hlusta á þessa plötu með það fyrir augum að slátra henni. Og svo það sé undirstrikað á ný þá voru væntingarnar afar litlar og hugurinn meira en svo til í nýtt efni frá þessum gömlu uppáhöldum.
Power Up er bara hryllilega léleg og leiðinleg plata. Tónlistin á síðustu tveimur plötum fer einfaldlega alltaf meira og meira í taugarnar á mér með hverri hlustun, sem er óþægileg tilfinning og sjaldfundin þegar AC/DC er annars vegar hjá mér. Og ef Power Up er ekki svanasöngur AC/DC, tónlistarlega séð, þá veit ég ekki hvað. Tónlistin getur ekki orðið mikið verri en þetta.

- Smári Tarfur

Einkunn: 1.5/10


Meira AC / DC á Halifax Collect:
AC / DC - Rock or Bust
The Razor's Edge


No comments:

Post a Comment