Interviews

Wednesday, November 25, 2020

ALLAR PLÖTUR AC/DC - Yfirferð



Þann 13. nóvember sl. kom út nýjasta breiðskífa AC/DC, sú sextánda úr hennar smiðju sem hlýtur alþjóðlega útgáfu.
Í tilefni af útgáfu þessari þótti mér tilvalið að rita eitt og annað um sveitina, dóma um hverja og eina plötu ásamt hinum og þessum vangaveltum. Og í leiðinni mun ég dæma Power Up, hina nýútkomnu skífu. Dómarnir eru ekkert sérlega ítarlegir heldur meira í formi hugleiðinga af ýmsu tagi. Og úttektin á ferli hljómsveitarinnar er ekki niðurnegld heldur. Bara allt til gamans gert.
Einkunnagjöfin er afar vandmeðfarin þegar svo margar plötur eru dæmdar og gerði ég mitt allra besta til að hafa samhengi þar. Frábærar plötur fá þannig ekki fullt hús stiga í samanburði við þær stórfenglegu, ef ég get orðað það svo.

Það er ágætt að því sé haldið til haga að plöturnar eru dæmdar út frá því hvernig mér líður gagnvart þeim í dag en ekki gamalli, úreldri dýrkun. Eins á ég til að líta svo á að um tvær hljómsveitir sé að ræða þegar AC/DC er annars vegar: Ein með Bon Scott innanborðs og hin með Brian Johnson. Og þú, lesandi góður, mátt endilega reyna að greina af skrifum mínum hvor söngvarinn er í meira uppáhaldi.
Ég læt vera að dæma áströlsku útgáfurnar af fyrstu plötunum sem og þröngskífuna ‘74 Jailbreak, Who Made Who (sem var gerð fyrir bíómynd Stephen King og inniheldur bara þrjú óútgefin lög) og tónleikaplöturnar tvær. Ég held mig alfarið við alþjóðlegu hljóðversplöturnar. 

Reynsla mín af AC/DC er töluverð. Hef fylgt henni frá því að ég var sex ára gamall, upplifað 13 tónleika á fernum tónleikaferðalögum, blandað geði við nokkra meðlimi hennar, lesið bækur og ýmislegt annað. Í sömu andrá vil ég nefna að þegjandi og hljóðalaust tek ég sannarlega ekki við hverju sem er frá þessum heiðursmönnum, þó þeir hafi verið svo til ódauðlegar hetjur í mínum augum er ungur var.

Angus og Malcolm Young eru (eða réttara sagt voru) ólíkindatól. Þeir uppgötvuðu snemma að þeir voru með mjög góðan efnivið í höndunum og voru nægilega ungir og ástríðufullir til að geta keyrt hlutina grimmt áfram. Malcolm var algjörlega potturinn og pannan á bak við AC/DC. Hann bjó yfir mjög sterkri sýn á hvað væri sniðugt að gera og hvað væri alls ekki gáfulegt að gera sem rokkhljómsveit. Hann sá til dæmis ekki tilganginn í að „þróast upp í rassgatið á sér“ á annarri eða þriðju plötu, eins og margar aðrar hljómsveitir gerðu og tapa þannig fylginu sem búið var að byggja upp. Hann sór þess því eið í byrjun að AC/DC myndi aldrei breytast.

Þá er þáttur George Young gríðarlega mikilvægur en sá (eldri bróðir bræðranna) hafði marga fjöruna sopið í tónlistarheiminum, átt stórsmellinn Friday On My Mind með The Easybeats, og þekkti hvern krók og kima bransans —  eitthvað sem átti eftir að reynast bræðrunum mikill hvalreki. Einnig var George ansi mikið hörkutól og tróð mörgum um tær, bara til þess eins að koma litlu bræðrum sínum áfram.
Og þeir kumpánar voru svo sem ekki minna harðir. Ef einhver abbaðist upp á þá varð fjandinn laus og menn gjarnan lúbarðir fyrir slíkt af köppunum, þó ekki væru þeir nú háir í loftinu.

Það að bræðralag hafi ríkt innan hljómsveitarinnar í heild er aftur önnur saga. Samkvæmt vitnisburðum margra sem bæði voru meðlimir í sveitinni sem og annarra sem störfuðu fyrir AC/DC á einn eða annan hátt, þá var slíkt ekki mikið upp á pallborðinu enda sveitinni alfarið stjórnað af hinum vægðarlausu Young-bræðrum. Menn komust ekki upp með neitt múður þegar Malcolm, Angus og George voru annars vegar og fengu ófá nöfnin að fjúka sem þeim þóttu ekki standa sig í stykkinu.
Því markmiðið var jú einfalt: Þeir ætluðu að verða stærsta rokksveit heims.

Og þannig varð Bon Scott eilítið fyrir barðinu á þessu, þó það hafi aldrei verið gert opinbert. Þegar bandaríska plötufyrirtækið Atlantic var komið til skjalanna og menn farnir að viðra skoðanir um að Bon væri ekki nægilega söluvænn, þá var það vel inni í myndinni hjá bræðrunum að láta hann fara því ekkert eða enginn skyldi stoppa þá á leið sinni á toppinn. Bon var reyndar nálægt því að hætta sjálfur á tímabili og kvartaði sáran yfir álaginu sem fylgdi því að vera í hljómsveit sem var „við það“ að slá í gegn. Hann talaði um einmanaleika og löngun til þess að setjast að og stofna til fjölskyldu —  svo erfitt var lífið orðið á hinu eilífa flakki tónleikastaða á milli auk þess sem pressan til að taka upp plötur var alltaf fyrir hendi. Persónan sem Bon Scott spilaði útávið átti sér því litla stoð í raunveruleikanum þegar grannt er skoðað. Því var sannarlega ekki allt sem sýndist á yfirborðinu hjá AC/DC, eins og svo oft vill vera í rokk- og popplífinu.



High Voltage (1976) 5/10

High Voltage er fyrirtaks plata fyrir fyrstu kynni af AC/DC með Bon Scott og gefur ágæta mynd af því sem koma skal. Það voru félagarnir George Young og Harry Vanda (sem var gítarleikari í The Easybeats) sem sáu um upptökustjórn AC/DC í byrjun ferilsins. Það er mikill leikur á High Voltage, sérstaklega fyrir tilstuðlan Scott og kímni hans sem hentar tónlistinni vel. Hér er reyndar eitthvað af lögum sem lifnuðu fyrst almennilega við þegar þau voru flutt á tónleikum en sóma sér ekki jafn vel í hljóðversútgáfum. It’s A Long Way To The Top og Rock’n Roll Singer halda áfram að lifa góðu lífi hjá mér en önnur lög rata sjaldan á fóninn nema ef vera skyldi á tónleikaupptökum.



Dirty Deeds Done Dirt Cheap (1976/1981) 4/10

Dirty Deeds hefur aldrei verið hátt skrifuð í mínum bókum. Hún er tekin upp í a.m.k. tvennu lagi. Hljómsveitin kom sér fyrir í Albert Studios í Ástralíu og hóf upptökur en rauk þaðan til Englands í tónleikaferð áður en þeim var lokið. Harry Vanda og George Young flugu til London til að halda áfram upptökum. Dirty Eyes var eitt laganna sem tekið var upp sem var seinna breytt í hið víðfræga Whole Lotta Rosie.
Það er ekki hægt að segja að það sé sterk heildarmynd af plötunni og hún virkar eins og henni hafi verið „hent saman,“ sem var reyndar oft raunin með vinnubrögð AC/DC í byrjun. Það sést máski best á því að George Young spilar bassann í einu lagi (Big Balls) þar sem Mark Evans var vafalítið fjarri góðu gamni þá stundina. Lítil hljómsveitarstemning yfir því. Mörg lagana eru síðan þunn með eindæmum. Sum urðu ágæt seinna meir eftir að hafa slípast til í opinberum flutningi en önnur eru auðgleymanleg. Svo leynist hér eitt lag sem sýnir áður óþekkta hlið AC/DC. Ride On, hægt en áhrifaríkt, og hæfileikar Angus Young fá að njóta sín vel. Magnað að hugsa til þess að hann hafi verið rétt nýskriðinn yfir tvítugt þegar hér er komið sögu. Blúsáhrifin komast vel til skila og sólóin lifa enn í minningunni eftir öll þessi ár. Að auki er hér mikið pláss fyrir Bon Scott til að láta ljós sitt skína sem hann sannarlega gerir.
Í heild er platan samt ekkert sérstök. Hef vart snert á henni síðan fyrir aldamót. Góð lög inn á milli (Problem Child og Ride On) en þar við situr.



Let There Be Rock (1977) 7/10

Á Let There Be Rock tekur hljómsveitin stórt stökk uppávið. Hér er öflugra samansafn af lögum en á fyrri verkum AC/DC. Öll lögin, átta talsins, eru góð. Sum þeirra eru frábær. Titillagið er t.d. alveg stórkostlegt enda verið sameiginlegur lofsöngur AC/DC-aðdáenda allar götur síðan, ef svo má að orði komast. Hljómlega séð passar Problem Child ekki vel inn á plötuna (enda ekki tekið upp á sama tíma og hin lögin) en er engu að síður stórgott. Vandamálið við Let There Be Rock er að sum lagana eru höst og stíf, ólíkt því sem seinna varð raunin í komandi tónleikaferðum. Hell Ain’t A Bad Place To Be er sérstaklega gott dæmi um þetta. Það er beinlínis líflaust og leiðinlegt hér en er svo aftur á móti stórfenglegt á tónleikaplötunni If You Want Blood (You’ve Got It) svo dæmi sé tekið. Let There Be Rock fengi mun hærri einkunn, ef betur hefði gengið hvað þetta snertir — fengi hartnær fullt hús stiga, svei mér þá.



Powerage (1978) 10/10

Hafi hljómsveitin stígið stórt skref í áttina að fullkomnun í hljómi sínum á Let There Be Rock, þá nær hún því til fulls á Powerage sem er frábær frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Hljómurinn hentar henni fullkomlega og hér eru engar auka eða óþarfa hljóðvers-tíðnir heldur ákveðinn sannleikur: Það sem maður heyrir eru raunverulegar tíðnir bassa- og gítarmagnara og trommusetts. Engar ónauðsynlegar viðbætur. Og rödd Bon Scott nýtur sín að auki vel, hrá og fín.
Tónlistin er skemmtileg, fjölbreytt og blæbrigðarík. Textarnir eru litríkir og spanna breiðara svið en áður. Bon Scott (Klósettveggjaskáldið, einsog hann kallaði sig) lætur fiðringinn í kynfærunum ekki ráða öllu hér heldur grípur niður í viðfangsefni á borð við sprautufíkla (Gone Shootin’) og ástríðuglæpi (What’s Next To The Moon) þar sem Superman og Lois Lane drepa niður fæti.
Gítarleikurinn er síðan kafli út af fyrir sig. Hvert og eitt lag er spennandi með þetta í huga og hér má finna gítarriff sem skipa sér í hóp þeirra bestu sem Young-bræður hafa gert; Rock’n Roll Damnation, Sin City, What’s Next To The Moon, Gone Shootin’ og hið stórkostlega Riff Raff.
Powerage er líka fyrsta platan með Cliff Williams innanborðs sem hefur verið bassaleikari AC/DC allar götur síðan. Hann tók við af Mark Evans sem var hreinlega rekinn úr AC/DC. Líklega of ljúfur gaur fyrir Young-bræður. Reyndar segja mér fróðari menn að bassastíll George Young sé auðgreinanlegur í lögum á borð við Gimme a Bullet og Gone Shootin’ en hvað sem því líður er Cliff titlaður sem bassaleikari plötunnar.
Það má líka nefna að til eru tvær mismunandi útgáfur af plötunni, hljómlega séð. Önnur er 10 laga og hefur að geyma aukalagið Cold Hearted Man. Munurinn er töluverður þar sem sum laganna hafa verið stytt og ýmist hlutum bætt við eða teknir út. Níu laga útgáfan heillar mig alltaf langtum betur en hin; meiri kraft er þar að finna og smekklegri útsetningar.
Gítarsólóið í Up To My Neck In You er með því svalara sem Angus hefur gert og í leiðinni eitt það lengsta. Bon Scott er eitraður í Down Payment Blues sem er með betri textum sem hann skildi eftir sig. Samspil Malcolm og Angus er stórfenglegt í Gone Shootin’ — virðist hafa verið hugsað til þaula hvernig þeir bera sig að. En til þess að þetta allt gangi upp þarf auðvitað góðan grunn og það er á valdi Phil Rudd að sjá um slíkt sem er meiriháttar öflugur hér, hvort sem það er í keyrslunni í Riff Raff, hinu letilega, afslappaða Gone Shootin’ eða diskórokkinu í Gimme a Bullet. Með slíkan grunn er leikur einn fyrir aðra hljómsveitarmeðlimi að „hvíla í“ taktinum og láta ljós sitt skína. Powerage er stórkostleg og líklega skemmtilegasta plata AC/DC þó eflaust megi deila um hvort hún sé betri en Back In Black.



Highway To Hell (1979) 8.5/10

Á Highway To Hell kveður við eilítið annan tón en áður. Suður-Afríkubúinn Mutt Lange er sestur í upptökustjórastólinn og Young & Vanda horfnir á braut. Tónlistin er gerð aðgengilegri fyrir hlustandann; lögin eru poppaðri á köflum (samanber Touch Too Much) og grípandi bakraddir orðnar áberandi þáttur í lagasmíðinni. Hljómurinn á Highway To Hell er hrikalega öflugur en mögulega ekki jafn skemmtilegur og á Powerage.
Hér er ekkert slæmt lag að finna. Platan er heilsteypt að því leytinu. Sum lagana eru, eins og oft áður, ekki búin að lifna nógu vel við fyrir upptökurnar eins og Girls Got Rhythm og Shot Down In Flames svo dæmi séu tekin. Highway To Hell er feikilega sterk plata engu að síður. Og m.a.s. þó Angus Young hafi sjálfur sagt að Love Hungry Man væri grútlélegt uppfyllingarlag sem hann samdi, þá er það samt þrusugott. Ég hef unun að því að renna Highway To Hell í gegn en hún er samt meira þvinguð heldur en Powerage — flýtur ekki jafn eðlilega áfram. Og þetta er frekar áberandi. Engu að síður er hún frábær plata enda lög á henni á borð við Beating Around The Bush, Get It Hot, If You Want Blood (You’ve Got It), Walk All Over You, Shot Down In Flames og auðvitað titillagið sjálft, Highway To Hell.




Back In Black (1980) 10/10

Það væri hægt að láta móðinn mása um meistaraverkið Back In Black sleitulaust. Hér er hvert og eitt einasta lag annað hvort stórgott eða frábært. Og frammistaða Brian Johnson er alveg hreint með ólíkindum, samanber fítonskrafturinn í laginu Shake A Leg. Og ég held að það sé sama hvert viðfangsefni laganna hafi verið. Johnson hefði getað sungið um ryksugur (sem hann reyndar gerði fyrir auglýsingu, daginn sem hann sótti um hjá AC/DC, myndband) og það hefði steinlegið!
Gítarriffin eru frábær öll sem eitt (Back In Black, Have a Drink On Me, Let Me Put My Love Into You, Shake A Leg), gítarsólóin eru frábær (Hell’s Bells, You Shook Me All Night Long, Given The Dog A Bone), textarnir eru góðir, spilamennskan er meiriháttar og söngurinn er kraftmikill og skemmtilegur í senn. Að auki er hljóðheimurinn óaðfinnanlegur. Hann sveiflast vissulega vel í poppuðu áttina en engu að síður nægilega lítið til að viðhalda frumkraftinum í AC/DC. Það var að hrökkva eða stökkva fyrir AC/DC á þessum tíma, eftir sviplegt fráfall Bon Scott, og það að hafa gert svona grimmilega mikið meistaraverk á þeim tímapunkti er magnað. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að margir dyggir stuðningsmenn AC/DC heyrðu Back In Black, sáu sveitina svo á tónleikum með Brian Johnson og ákváðu í kjölfarið að hætta að fylgja AC/DC eftir! 

Það má nefna að það er stöðugt rifist um hvort Brian Johnson hafi í raun samið textana á plötunni. Fjölskyldumeðlimir Bon Scott hafa einmitt haft orð á því að þeirra maður hefði samið bróðurpartinn á Back In Black. Því til stuðnings má greina frá því að fyrir einhverju síðan setti aðili úr innsta hring AC/DC sig í samband mann sem var ötull í sjóræningjaútgáfum af sjaldgæfum tónleikaupptökum. Hann sagðist eiga í fórum sínum snældu með upptökum frá árinu 1979, þar sem heyra mætti Bon Scott og Malcolm Young fara yfir hugmyndir. Máli sínu til sönnunar sendi hann hljóðbút úr einu laganna og ég fékk einmitt að heyra þetta á sínum tíma þar sem heyra má Scott og Malcolm taka eitthvað sem gæti verið undanfari What you Do For Money Honey. Umræddur aðili hætti síðan við að selja kassettuna góðu sem hefði eflaust afhjúpað einhver leyndarmál varðandi höfundarréttinn á Back In Black.

Fyrir mér er Back In Black best sungna plata AC/DC og skipar sér í hóp bestu frammistaða rokksöngvara sem heyrst hafa.

 Já, Bon Scott aðdáendur. Þið lásuð rétt. Best sungna plata AC/DC.

Áhlustun er sögu ríkari. Alveg hreint ótrúleg plata.



For Those About To Rock (We Salute You) (1981) 7/10

For Those About To Rock er þriðja og jafnframt síðasta plata AC/DC með Mutt Lange við upptökustjórn. Sagan hermir að Young-bræður hafi fengið sig fullsadda á hinu endalausa nuddi sem fylgdi því að taka upp undir stjórn Lange en kauði er þekktur fyrir að vilja fullkomna allt. Allir í hljómsveitinni voru orðnir hundleiðir á hinu langa upptökuferli og vissu hvorki hvort hlutirnir hljómuðu vel eður ei þegar upp var staðið.
Platan á ansi öfluga spretti. Það gætir hins vegar smá rembings hér og þar, sem hafði hreinlega ekki heyrst til þessa. Og merkilegt nokk — þrátt fyrir smámunasemi og fullkomnunaráráttu Mutt Lange —  þá er Brian Johnson hreinlega falskur og flatur á köflum. En hvað um það. Hér má finna frábær lög. Titillagið er fyrir löngu orðið sígillt AC/DC lag og til marks um það hefur hljómsveitin endað hverju einustu tónleika með laginu síðan (að undanskildum einum tónleikum í Valle Hovin í Noregi árið 2010). Inject The Venom fer t.a.m. langt með að vera besta frammistaða Brian Johnson með AC/DC. Hann fer hamförum —  engu líkara en að hann gefi bókstaflega allt í sölurnar.
For Those About To Rock er plata sem ég sæki ekki oft í en ég held þó mikið upp á Inject The Venom auk C.O.D., Evil Walks og Snowballed. Nokkur önnur eru alveg ágæt en svo er súrmeti inn á milli á borð við Breaking The Rules.
Platan er heilt yfir fremur vinsæl meðal AC/DC-unnenda og stendur sig ágætlega sem eftirrennari Back In Black en það er erfitt að ætla sér að koma tilbaka eftir slíkt meistaraverk.



Flick Of The Switch (1983) 8/10

Eftir löng og ströng upptökuferli með Mutt Lange á þremur plötum í röð fengu Young-bræður alveg nóg og sögðust vilja „sparka í gumpa á ný“. Samstarfinu við Mutt Lange var því slitið og bræðurnir sáu sjálfir um upptökustjórn. Og er það vel, því Flick Of The Switch fer að því leytinu aftur í ræturnar. Hún er feikilega hrá og nánast illa hljóðunnin á köflum. Það kemur þó ekki að sök því útkoman er helvíti skemmtileg. Hér eru samankomnir fimm menn sem sameina krafta sína í að spila öflugt rokk og ról. Punktur. Það er umfram allt það sem Flick Of The Switch stendur fyrir og á henni er ekki eitt veikt lag að finna. Hún er gegnheil hvað það snertir. Máski keppa lögin ekki við það besta á Back In Black en á köflum kveður samt við nýjan tón í lagasmíðinni sem er spennandi. 
Flick Of The Switch er plata sem meginstraumsaðdáendur ná gjarnan ekki og reyndar afar sjaldan. Á henni er jú ekkert You Shook Me All Night Long eða Thunderstruck. Enginn auðmeltur risasmellur sem mata má í grunlausan bolinn. Skífan er aftur á móti hátt skrifuð hjá harðlínuunnendum sveitarinnar og oft kölluð Powerage-platan hans Brian. Og er án efa sú harðasta úr smiðju AC/DC.
Brian Johnson er stórkostlegur á þessari plötu. Hann er ekki jafn drekktur í effektum og á Back In Black heldur er sönghljómurinn látinn standa óáreittur, ef svo má segja. Það reyndar fer tvennum sögum af því hvort Phil Rudd sé á plötunni eða ekki því hann var jú rekinn meðan hljómsveitin var enn í hljóðverinu. Ég átt eitt sinn tal við Jake Berry, sem starfaði lengi fyrir AC/DC, og hann sagðist aldrei hafa séð Phil jafn hamingjusaman og þegar hann skutlaði honum út á flugvöll eftir að hann var rekinn. Trommuleikarinn B.J. Wilson úr hljómsveitinni Procol Harum var kvaddur í hljóðverið en samkvæmt AC/DC voru þær tökur aldrei notaðar.
Hér er dágóður slatti af frábærum lögum. Titillagið er þrusuöflugt. Með því besta frá AC/DC. Önnur lög sem gleðja rokkhjartað eru: Landslide, Nervous Shakedown, Guns For Hire, This House Is On Fire og Bedlam In Belgium.
Flick Of The Switch var kærkomin viðbót í safnið sem sýndi hvers megnug AC/DC var fjarri þeirri söluvænu birtingarmynd sem Mutt Lange dró fram í henni með Brian Johnson. Og það segir meira en mörg orð um hver pirraðir Young-bræður voru orðnir á að láta hlutina dragast að þegar myndböndin við plötuna voru tekin upp sagði Malcolm Young við kvikmyndateymið: „Við ætlum að æfa hér í dag. Þið getið tekið upp myndbönd á meðan en þið klárið þau í dag!“



Fly On The Wall (1985) 8/10

Fly On The Wall er feikilega umdeild plata á meðal AC/DC-unnenda. Hún er sú fyrsta sem hljómsveitin gerir eftir brotthvarf hins ástralska Phil Rudd og Englendingurinn Simon Wright — þá aðeins 21ns árs að aldri — tók við kjuðunum. Að auki sitja Young-bræður sem fastast við stjórnvölinn eins og á Flick Of The Switch og enginn utanaðkomandi fékk að koma nálægt upptökustjórninni.
Flestum finnst hljóðheimur plötunnar fremur lélegur, hartnær hræðilegur í sumum tilfellum. Hvað sem því líður á hann stóran þátt í að platan er eins og hún er. Fly On The Wall hefur að mörgu leyti meira skemmtanagildi en fyrirrennari hennar, Flick Of The Switch. Hún er aðeins meira léttleikandi og margir vilja meina að hún sé kraftmikil partýplata. Ég læt vera að fara með slíkar yfirlýsingar hér. Mér finnst hún allavega drulluskemmtileg, ekki síst fyrir hversu ófullkomin hún er og í dag myndi ég alls ekki vilja að hún væri neitt öðruvísi. Fly On The Wall, Shake Your Foundations, Sink The Pink, Hell Or High Water, First Blood og Playing With Girls eru öll þrusugóð. Það síðastnefnda er hæglega með kraftmestu og þyngstu lögum sem AC/DC hefur gert og Brian lætur sitt ekki eftir liggja —  fer alveg á kostum á hljóðnemanum. Back In Business og Stand Up eru þrælfín. Danger er öðruvísi en ég kann vel að meta það engu að síður. Fæ á tilfinninguna að menn hafi aðeins verið að leika sér, sem er skemmtilegt.
Ég var svo heppinn á sínum tíma að eignast kassettu með tónleikaupptöku frá Wembley Arena í London árið 1986 úr Fly On The Wall tónleikaferðinni, fljótlega eftir að platan varð á vegi mínum. Það átti sinn þátt í að hún festi sig enn frekar í sessi hjá mér því hafi lögin hljómað undarlega á plötunni þá gerðu þau það sannarlega ekki á tónleikum. Í heildina litið er Fly On The Wall kannski ekki best sem fyrstu kynni af AC/DC en þrátt fyrir hnökrana er hún stórskemmtileg og enn í miklu uppáhaldi. Hún eykur blæbrigðin í flóru útgáfanna frá AC/DC og sker sig í raun töluvert úr. Hún er líklega næst uppáhalds platan mín með Brian Johnson (og núna hellast sjálfsagt yfir mig líflátshótanir frá Flick Of The Switch ofstækisunnendunum!).



Blow Up Your Video (1988) 
4.5/10

Á Blow Up Your Video fer eilítið að kárna gamanið þó að neistinn slokkni nú ekki alveg hjá gömlu brýnunum. Upptökuteymið George Young og Harry Vanda mætir aftur til leiks og sér um stjórna ferlinu í hljóðverinu í fyrsta sinn síðan 1978. Hljómurinn er alls ekki upp á sitt besta en þó að einhverju leyti í takt við hvað var í gangi á þessum tíma.
Platan byrjar sterkt á Heatseeker og That’s The Way I Wanna Rock’n Roll sem nutu bæði mikilla vinsælda þegar þau komu út. Ég veit ekki hversu vel þau eldast né hvernig þau myndu hljóma í eyrum þeirra sem aldrei hafa heyrt en mér þykir ennþá afar vænt um þau bæði, sérstaklega Heatseeker. Við tekur Meanstreak sem er ólíkt öllu sem AC/DC hafði gert til þessa. Letileg, fönkskotin/grúví bassalína leiðir lagið og bakraddirnar styðja skemmtilega við litríka laglínu Brian Johnson sem er virkilega góður hér. Röddin er þó eitthvað komin til ára sinna á allri plötunni og líður mögulega fyrir lélega hljóðvinnslu líka. Á köflum verður söngurinn nánast pirrandi, mest sökum lélegs hljóms. Lagið Go Zone er líka frekar gott en þá heyrist betur hinn takmarkandi hljóðheimur sem á eftir að verða til frekari trafala þegar líður á.
Svo leynast hér lög þar sem hljómsveitin hættir sér aðeins út fyrir rammann í lagasmíðunum. Kissin’ Dynamite, sem hefur smá tregafullan undirtón, Nick Of Time, þar sem virkar eins og taktbreyting eigi sér stað í aðalriffinu, og Sum Sin For Nuthin’ hafa öll að geyma eitthvað nýtt sem ekki hefur heyrst áður úr herbúðum AC/DC. Sama má segja um Two’s Up. Þau líða hins vegar öll fyrir hljóminn sem skilar þeim engan veginn nógu vel. Einhver þeirra hefðu eflaust getað orðið fín en það er erfitt að heyra það hér því þau hljóma nánast eins og demó. Plötunni lýkur á This Means War sem er mikið trukk, hratt og skemmtilegt og maður nær að fyrirgefa hljóðinu þegar svona mikið stuð er á strákunum. Heildarmynd plötunnar er þó ekki góð. Helmingur laganna er fínn en restin er annað hvort harla góð eða hreinlega skilar sér ekki nógu vel út af frammistöðu upptökustjóranna. Þess má geta að töluvert af aukalögum leit dagsins ljós á smáskífum Blow Up Your Video en eitt var þó fjarri góðu gamni, Let It Loose, sem átti fullt erindi á plötuna og hefði eflaust náð að ýta heildarmyndinni eilítið upp hvað gæði laganna snertir. Blow Up Your Video er fyrsta virkilega lélega plata AC/DC með Brian Johnson.
Tónleikaferðin markaði líka ákveðin tímamót því Malcolm Young tók sér frí frá störfum í miðri tónleikaferð og var leystur af af Stevie Young sem tók seinna sæti Malcolm í AC/DC þegar hann hætti sökum veikinda.



The Razor’s Edge (1990) 
3/10 

(Lengri dóm má lesa hér) Þegar hér er komið sögu er Simon Wright horfinn á braut til að ganga til liðs við Dio. Og það er gaman að geta þess að sá sem þetta ritar gerði sér lítið fyrir og sótti um trommarastöðuna hjá AC/DC! Vel valin lög voru spiluð inn á snældu í bílskúr á Patró og send til umboðsmanns hljómsveitarinnar. Hvort ég hafi átt fullt erindi sem arftaki Simon Wright í AC/DC — 13 ára gamall — skal látið ósagt hér en mér rann hreinlega blóðið til skyldunnar, vitandi af mínum mönnum trommaralausum og ómögulegum. Í trommarastólinn settist loks Chris Slade, sem hafði leikið með listamönnum á borð við Tom Jones og Manfred Mann's Earth Band.
The Razor’s Edge er í heild sinni ekki hátt skrifuð í mínum bókum. Mikilvægi hennar er þó ótvírætt því AC/DC festi sig á ný í sessi sem ein af vinsælustu rokksveitum heims og bætti við sig mörgum nýjum unnendum. Og það er í raun bara ein ástæða fyrir þessu —  stórsmellurinn Thunderstruck. Flestir sem hengt hafa á sig gítar allar götur síðan hafa spreytt sig á laginu og það er t.a.m. enn þann dag í dag spilað á öllum íþróttaviðburðum Bandaríkjanna (og sjálfsagt víðar). Gríðarlega vinsælt ennþá, sem sagt.
Hér er mættur kanadíski upptökustjórinn Bruce Fairbairn sem vissi sínu viti þegar kom að því að gera rokk söluvænt. Sögusagnir þess efnis að lagasmiðurinn Desmond Child hafi verið Young-bræðrum til fulltingis hafa reglulega farið á kreik en þó aldrei verið staðfestar. Það kæmi mér reyndar hreint ekki á óvart því The Razor’s Edge er óttalegt popp. Thunderstruck, Money Talks og Are You Ready eru allt mjög poppuð AC/DC lög. Og það er svo sem gott og blessað ef gæðin eru í lagi. Hinn gerilsneyddi og nýstárlegi hljómur sem Fairbairn ýtti úr vör gengur fullkomlega upp í Thunderstruck, í titillaginu sem og í Fire Your Guns. Að öðru leyti verður hann helvíti þreytandi og að auki eru lögin mörg hver alveg óheyrilega leiðinleg.
Síðan get ég ekki annað en minnst á þátt Chris Slade sem er ferkantaður með eindæmum í trommuleiknum (samanber frammistaðan í Money Talks og Shot Of Love). Simon Wright var meira nálægt því að viðhalda sveiflunni í hljómsveitinni sem Phil Rudd stóð fyrir. Chris Slade er mun fjær því og hún tapast á köflum algjörlega. Það er ekki skrítið að háværir orðrómar þess efnis að hljómsveitin hafi stuðst við trommuheila í upptökunum heyrast reglulega og sannarlega ekki að ósekju því þetta verður oft ansi þurrt og vélrænt á The Razor’s Edge. Ég man heldur ekki eftir því á AC/DC-plötu að hafa þurft að heyra sjö léleg eða miður góð lög í röð! Let’s Make It, Got You By The Balls og Mistress For Christmas eru sem dæmi öll alveg heiftarlega leiðinleg. En mér þykir samt sem áður pínu vænt um The Razor’s Edge, þó hún sé án efa oftmetnasta plata hljómsveitarinnar. Ég fékk nefnilega að sjá þá tvívegis á tónleikaferðinni eftir útkomu plötunnar og það var mikil upplifun fyrir ungan dreng sem hafði fylgt AC/DC svo kirfilega um hvert fótmál bróðurpart ævinnar fram að því.
Upplifunin varð svo að vísu margfalt öflugri fimm árum seinna við að sjá AC/DC með Phil Rudd mættan til að hakkberja húðirnar. Svart og hvítt, hreinlega.



Ballbreaker (1995)
 6.5/10 

Ballbreaker er plata sem ég held gríðarlega mikið uppá, þó hún sé ekki hnökralaus. Hún markar endurkomu Phil Rudd, sem var látinn fara í miðjum upptökum á Flick Of The Switch. Hún er að auki fyrsta „nýja“ platan sem ég upplifi þar sem hann er innanborðs. Þannig að hér er sjálf Back In Black uppstillingin á hljómsveitinni mætt til leiks eftir 12 ára hlé. Ekki dónalegt það. Að auki hélt ég upp á áfanga í lífi mínu með því að sjá AC/DC fimm sinnum á Ballbreaker tónleikaferðinni á Englandi sumarið 1996. Mér hlotnaðist einnig sá mikli heiður að fá Angus Young til að árita gítarinn minn sem var ógleymanlegt. Ballbreaker hefur því mjög mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig og tónleikarnir eru með þeim allra bestu sem ég hef upplifað á lífsleiðinni, ef ekki þeir bestu.
Eftir inngang lagsins Hard as a Rock færðist yfir mig stórt bros þegar trommutakturinn hófst — gamli AC/DC-fílingurinn var loksins kominn aftur. Það er nefnilega eitthvað alveg dásamlegt við hvernig Ruddarinn nálgast og spilar þennan líka endalaust marktuggna 4/4 takt og það er á afar fárra færi að leika það eftir. Trommarar sem vilja meina að trommuleikur snúist um að gera þrefaldar paradiddlur, taktbreytingar, flamm og gera breik bara nógu helvíti hratt, eiga gjarnan ekki séns í að gera hið auðvelda jafn vel og trommari sem Phil Rudd. Hann er einfaldlega með þeim bestu sem uppi hafa verið þegar að kemur að einföldum, kraftmiklum og safaríkum rokktrommuleik.
Það er Rick Rubin sem sá um upptökustjórn á Ballbreaker. Ferlið hófst í New York þar sem AC/DC nánast fullkláraði plötuna. Síðan var hætt við að notast við upptökurnar og leiðin lá yfir til Los Angeles þar sem platan var tekin upp að nýju. Þetta spilaði stóra rullu í að hljómsveitin var búin að kynnast lögunum vel, leyfa þeim að mótast og gerjast og komin skemmtileg sveifla í spilamennskuna - ólíkt öðrum plötum frá AC/DC. Það fer reyndar tvennum sögum af frammistöðu Rubin. Á tímabili þóttust Young-bræður vart þekkja Rubin né að hann hafi komið nálægt plötunni. Hann á það nefnilega til að mæta bara annað veifið í hljóðverin hjá skjólstæðingum sínum, gefa hin og þessi ráð sem listrænn stjórnandi en síðan eru aðrir látnir sjá um vinnuna. Og hinir grjóthörðu vinnuþjarkar sem Young-bræður voru, urðu ekki par hrifnir af þeirri háttsemi Rubin. Hvað sem því líður státar Ballbreaker af besta hljómnum síðan Fly On The Wall, því The Razor’s Edge og Blow Up Your Video eru aldeilis ekki beysnar að þessu leytinu.
Á Ballbreaker má finna nokkur alveg stórfín lög. Hard as a Rock, Hail Caesar og titillagið eru hápunktarnir fyrir mig. Hin tvö síðarnefndu voru að auki alveg hreint stórkostleg á tónleikum, sem jók ástríðu mína fyrir plötunni enn frekar.
Svo eru nokkur þokkaleg á borð við Cover You In Oil, Caught With Your Pants Down, Whiskey On The Rocks og Boogie Man — gaman að fá hægt lag frá hljómsveitinni eftir þó nokkurt hlé. Önnur lög (Love Bomb, Burnin’ Alive, The Furor og Honey Roll) kveikja minna í mér, þó ekkert þeirra sé beinlínis lélegt eða leiðinlegt.
Brian Johnson hljómar meira eins og hann sjálfur eftir fremur illa útfærðan sönghljóm á The Razor’s Edge. Karakterinn í sólóum Angus Young er sterkur, samanber Hard as a Rock og The Furor. Ballbreaker er bara helvíti góð og fyrsta „alvöru“ AC/DC platan síðan Flick Of The Switch.



Stiff Upper Lip (2000) 5.5/10 

Rokk og ról er tegund tónlistar sem er kirfilega bundin við orku og þar með aldur fólks sem flytur hana. Hún er ungs manns leikur, ef svo má segja. Og hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá „hefur tíminn okkur öll að fíflum fyrir rest,“ eins og ákveðinn undradrengur orðaði svo skemmtilega. Á Stiff Upper Lip eru menn orðnir fimm árum eldri og máski eilítill háskaleikur að halda áfram á sömu braut hvað textagerð snertir — að syngja um konur og láréttan dans með þeim með tilheyrandi tvíræðni og jafnvel sorahætti. Með öðrum orðum; hér er AC/DC nálægt því að falla á tíma.
George Young er mættur — einn síns liðs að þessu sinni — til að upptökustýra plötunni. Og er það vel, því hann var jú alltaf sjötti meðlimur hljómsveitarinnar og hjálpaði mikið til á bakvið tjöldin. Það fer vel á því að hann fengi að gera eina plötu til viðbótar seint á ferli AC/DC enda með hárrétta sýn á hvernig góð rokksveit á að hljóma (ef undan er skilin Blow Up Your Video). Stefnan hjá George hefur alltaf verið einföld; að setja frammistöðu hljómsveitarinnar ofar öllu. Eins og hann sagði sjálfur: „If you have a shit song and a great sound — your SHIT’S gonna sound GREAT!“
Hér er merkilega góður fílingur í gangi. Og platan er mjög blússkotin í heildina litið, eitthvað sem fer AC/DC gjarnan vel. Á henni má finna síðasta virkilega frábæra lag úr smiðju AC/DC en titillagið, Stiff Upper Lip, hefur allt að geyma sem gott AC/DC lag þarf: Gítarriffið er þrusugott og samspil Young-bræðra mjög svo áhugavert. Útsetningin er spennandi og nýir snúningar hér og þar sem ekki hafa heyrst áður frá hljómsveitinni. Og nái maður að horfa framhjá því að Brian Johnson er 53ja ára gamall að syngja um að „hafa gaman“ þá er þetta allt í góðu, því textinn er bara drullufínn. Frábært lag og aðdáunarvert hve seint á ferlinum AC/DC náði að ýta svo miklum gullmola úr vör.
Aðrir sprettir á plötunni sem vert er að minnast á eru Meltdown, þar sem Phil Rudd sveiflan er í algleymingi, Can’t Stand Still — klassískt blúsað rokk og ról að hætti AC/DC — Hold Me Back er fjörugt og grípandi þar sem Brian leikur á alls oddi. Hinn eitraði en áhrifaríki einfaldleiki AC/DC heyrist glöggt í Satellite Blues og svo er Come and Get It skemmtilegt, þar sem Malcolm Young ljáir viðlaginu sinni sérstöku rödd. Önnur lög kveikja minna í mér en hér er ekkert að finna sem er lélegt eða leiðinlegt. Safe In New York City er til dæmis alveg ágætt — þrælfínt keyrslulag hjá AC/DC.
Í heildina litið er Stiff Upper Lip bara drullufín. Hún er ekki stórkostleg eða neitt slíkt en heildarfílingurinn er skemmtilegur og ég hefði ekki viljað fara á mis við hápunktana sem platan býður uppá. Hljómgæðin hefðu eflaust getað verið pínu skemmtilegri en þau eru þó  beint úr kúnni, sem er alltaf líklegra til að vekja kátínu frekar en fínpússun og gerilsneyðing. Hér er tíminn reyndar orðinn naumur, ef svo má segja. Hljómsveitin var nefnilega síðast frábær tónleikasveit árið 2001 (á Stiff Upper Lip tónleikaferðinni) áður en fór að halla undan fæti sökum þess sem herjar á okkur öll sem fáum að halda lífi — blessaður aldurinn fer að segja til sín.



Black Ice (2008)
 4.5/10 

Heil átta ár liðu frá útgáfu Stiff Upper Lip þangað til að Black Ice kom út. Hér er mættur bandaríski upptökustjórinn Brendan O’Brien en ferilsskrá hans er alveg með ólíkindum; Pearl Jam, Soundgarden, Neil Young, Korn, Bruce Springsteen og Mastodon eru t.d. meðal þeirra listamanna sem kauði hefur unnið með.
Það er óljóst hvenær veikindi Malcolm Young voru komin í ljós, en þetta er síðasta plata hans með AC/DC og síðasta tónleikaferðin sömuleiðis (þar sem hann átti stundum í vandræðum með að muna lögin). Á Black Ice eru 15 lög sem gerir hana að lengstu plötu AC/DC fyrr og síðar. O’Brien tekst ágætlega upp í hljóðblönduninni en að vísu gætir of mikilla — og of áberandi — yfirtakna á köflum, bæði á gítar og í söng. Sveitin bregður stundum undir sig betri fætinum og hellir sér í áður óþekkta tilraunamennsku, sem er aðdáunarvert. Þannig spilar Angus Young með slæd-röri í Stormy May Day, Cliff Williams sýnir fönkið í sér í She Likes Rock’n Roll og AC/DC afhjúpar svo hugljúfa hliðina í Rock’n Roll Dream. Þá er vert að minnast á Anything Goes sem er líklega ein mesta gleðibomba sem AC/DC hefur sent frá sér síðan Who Made Who. Stórfínt alveg.
Platan er alveg glettilega fín. Lög eins og Big Jack, Smash N Grab, Spoilin’ for a Fight og Rock’n Roll Train eru öll þrælgóð. Sum eru svo ekkert spes eins og til dæmis Wheels, War Machine og sama má segja um Rocking All The Way sem sýnir þó lágu rödd Brian Johnson sem er ansi svöl en því miður lítt notuð í AC/DC.
Money Made er að mínu mati hápunkturinn á Black Ice og er síðasta góða lagið sem heyrist úr smiðju AC/DC. Þar er þáttur Malcolm mikilvægur; gítarleikur hans í laginu er afslappaður og smekklegur. Öll spilamennska hljómsveitarinnar gjörsamlega steinliggur og gítarriffið er frábært. Brian er líka skemmtilegur hér og fer vel með textann sem er merkilega góður að þessu sinni. Þetta gátu þeir, svona seint á ferlinum, 53ja til 61ns árs gamlir.
Af plötunum sem O’Brien gerði með AC/DC er Black Ice áberandi best. Hún hefði m.a.s. getað orðið mun betri með færri, vel völdum lögum og sem betur fer er rembingurinn sjaldheyrður sem fór heiftarlega í gang á næstu plötu.
Neistann — sem einkenndi AC/DC — má alveg finna hér og þar á Black Ice. Og þó að einkunnin hér sé lág þá er ágætt að undirstrika að einkunnagjöfin er í samræmi við bestu afrek AC/DC. Að lokum vil ég segja að ég sá þá tvisvar á Black Ice tónleikaferðinni og gerði mér þá grein fyrir að tími þeirra sem stórkostleg tónleikasveit væri liðinn. Hef ekki fundið mig knúinn til að sjá þá síðar.



Rock or Bust (2014) 
 2/10  

(Lengri dóm má lesa hér) Rock or Bust er ekki hátt skrifuð í mínum bókum og eftir að hafa kynnst henni eins vel og ég mögulega gat á sínum tíma þá var niðurstaðan; versta plata AC/DC frá upphafi. Því miður. Ég myndi svo gjarnan vilja hafa gaman af henni en hún varð bara meira og meira pirrandi með hverri hlustuninni. Yfirleitt vaxa góðar plötur alltaf meira og meira en það var ekki raunin hér.
Hún er sú fyrsta sem AC/DC gerir án Malcolm Young. Og ég held að hér sé ekki við Stevie Young að sakast því hann er fyrirtaks spilari og þekkir AC/DC-rullu sína vel. Það eru fínustu gítarriff hér og þar (samanber Miss Adventure, Play Ball og Emission Control). Það er bara einhver hundleiðinlegur rembingur undirliggjandi á allri plötunni. Textarnir eru hryllingur, oftast nær. Brian Johnson er oft kreistur og leiðinlegur, ólíkt fínni frammistöðu á Black Ice.
Rock or Bust skilur lítið sem ekkert eftir sig og ég hef vart hlustað á hana síðan hún kom út.



Power Up 
(2020) 1.5/10   

(Lengri dóm má lesa hér). Og síðan er það þriðja platan sem AC/DC gerir í samvinnu við Brendan O’Brien, Power Up. Hún er sú lélegasta úr því samstarfi og jafnframt sú lélegasta sem sveitin státar af. Rembingurinn er enn meiri, ef eitthvað er, en á Rock or Bust. Vonir mínar og væntingar voru svo til engar — ég hefði verið til í eitt gott lag sem hefði lifað áfram eða að platan væri betri en Rock or Bust. Svo var því miður ekki og ég á ekki von á því að Power Up muni rata í eyrun mín neitt á næstunni, ef þá nokkurn tímann. Þó var ég allur af vilja gerður, með opinn huga, fyrir því að þessi plata gæti vakið áhuga minn, svo það sé á hreinu.
Mér fannst No Man’s Land þrælfínt en frammistaða Brian Johnson dregur það niður fyrir minn smekk. Through The Mists of Time og Kick You When You’re Down gerðu lítið fyrir mig. Ekki neitt, í sannleika sagt. Demon Fire er hratt en þar við situr. Ekkert spes lag. Útsetningin er áhugaverð en lagið sjálft er óspennandi. Og þó spilamennska og hljómur sé með ágætum þá er innihaldið því miður bara ekki neitt. Textarnir eru síðan heilt yfir alveg handónýtir. Eins og ég nefndi í langa dómnum um plötuna þá hefur platan fengið feikilega góða dóma og til þessa hef ég ekki séð lægri gjöf en 8/10 og 4/5 hjá erlendu rokkpressunni. Oftast hefur hún fengið 9/10 í einkunn. Gott og vel. Máski er fólk smeykt við að segja skoðun sína þar sem að þetta er jú plata til heiðurs Malcolm Young og viðkvæmt að gagnrýna um of.
En ef þetta er einkunnin sem hún fær, hvað ætla menn þá að gefa Back In Black? Er Power Up það mikið meistaraverk að lög af henni ættu fullt erindi á Back In Black, For Those About To Rock eða Flick Of The Switch? Og er frammistaða Brian Johnson á Power Up virkilega á pari við hans besta á þeim plötum? Og sama má segja um Angus og hina. Hafa þeir bara aldrei verið betri, nú allir að nálgast eða komnir yfir sjötugt? Eflaust fer ég hressilega út fyrir efnið hér en oft er skortur á samhengi í einkunnagjöf og það hefur verið sérstaklega áberandi síðustu vikurnar með Power Up. Nema, auðvitað, að mér skjátlist hrikalega og hér sé ódauðlegt meistaraverk (eins og Back In Black) á ferðinni. Sokkurinn minn er þá tilbúinn til áts!

En hvað sem því líður þá er Power Up algjörlega svanasöngur AC/DC fyrir mér. Ég á ekki von á að þessir herramenn nái að hrista skemmtilega tónlist úr erminni úr þessu. Til þess er tónlistin á síðustu tveimur plötum einfaldlega orðin alltof léleg og leiðinleg. Og þessi líka leiðinda rembingur ofan í allt sem gerir hlutina bara meira og meira pirrandi. 

En þeir mega gjarnan koma mér á óvart. Auðvitað! 

En þar með lýkur þessum skrifum mínum um AC/DC. Ég vona að þú, lesandi góður, hafir haft gaman af þessari grein, þó hún sé fremur óformleg sem slík. Ég þakka þér allavega innilega fyrir að gefa þér tíma til að lesa. Vonandi ná okkar menn að — halda lífi sem lengst —  rétta almennilega úr kútnum, skyldu þeir ákveða að koma með enn eina plötuna og vanda til verka. Ég ét þá sokkinn minn með glöðu geði!
- Smári Tarfur

5 comments:

  1. Geggjað Smári, takk fyrir þetta

    ReplyDelete
  2. Lestrinum með morgunkaffinu reddað, takk Smári!

    ReplyDelete
  3. Ég er svo öskrandi ósammála um ótalmargt þarna gamli vin. En djöfull væri gaman að þrasa um þetta yfir enn einum kaffibollanum

    ReplyDelete
  4. Flott og skemmtileg lesning og jú sammála þér að mörgu leyti. Hvað nýju plötuna varðar þá gleðst ég þó hvað mest yfir því að Ruddarinn er kominn aftur, alveg sama hvert lagið er maður heyrir um leið hver er við settið. Án alls vafa besti trommari hinnar síðari rokksögu.Magnað með þennann mann, hann gerir nánast ekki neitt en gerir það samt svo andskoti vel ��

    ReplyDelete